grein

Stærsti viðburður í Bitcoin sögunni endurtekur sig

03/05/20 08:00

Stjórnarformaður Rafmyntaráðs

Kristján Ingi Mikaelsson

Stjórnarformaður Rafmyntaráðs

Þann 12. maí næstkomandi mun Bitcoin helmingunin (e. Bitcoin halving) eiga sér stað. Um er að ræða viðburð sem á sér stað á fjögurra ára fresti en hann hefur margvísleg áhrif á Bitcoin hagkerfið. Við skulum rekja hversu mikilvægur viðburðurinn er og hvað hann raunverulega þýðir.

Hvað er Bitcoin?

Bitcoin er rafmynt, sem er ekki gefin út af seðlabanka eða ríki. Hún lifir einungis á veraldarvefnum, þar sem einstaklingar geta sent hana sín á milli. Hægt er að færa til rafmyntina óháð landamærum, trúarskoðunum eða opnunartímum, þar sem hver eigandi hefur fulla stjórn yfir sínum eignum á Bitcoin netinu. Rafmyntin verður tólf ára í ár, en hún spratt einmitt upp úr síðustu kreppu sem svar við vöntun á betra fjármálakerfi.

Hvað er Bitcoin helmingunin?

Bitcoin netið heldur úti eigin peningastefnu, þ.e. hversu mikið er gefið út af nýrri mynt á hverjum tímapunkti. Netið gefur út rafmyntina með fyrirsjáanlegum hætti, til að borga þeim sem tryggja það með námuvinnslu. Ljóst er að einungis verða til um 21 milljón eintök af rafmyntinni og í dag hafa 18.35 milljónir verið gefnar út. Einungis á því eftir að gefa út 2.65 milljónir á næstu 120 árum. Ný útgáfa mun minnka um helming í maí og fer úr 656.250 eintökum niður í 328.125 á ársgrundvelli. Þetta þýðir í raun að ný útgáfa, eða verðbólga (til einföldunnar) fer undir 1.8% og verður því sambærileg bæði stærstu hagkerfum heimsins og gulli.

Hvaða máli skiptir helmingunin?

Helmingunin dregur mikla athygli að Bitcoin og margir læra um rafmyntina í fyrsta sinn. Síðast átti helmingunin sér stað árið 2016 og vakti það mikla athygli. Við sjáum með greiningu á uppflettingum á Google Trends að það stefnir í að margfalt fleiri viti af og kynni sér rafmyntina Bitcoin. Ytri aðstæður í hagkerfinu fá líka marga til að hugsa um hvað er í vændum.

Bitcoin á tímum peningaprentunar

Ástandið í heiminum í dag er einstakt. Talað er um hundrað ára krísu og áhrifin eru ekki komin fram að fullu. Á sama tíma og Bitcoin dregur úr nýrri mynt í umferð, keppast seðlabankar heimsins við að prenta sig út úr krísunni. Til lengri tíma mun peningaprentunin draga úr verðgildi peninga og því rýra eignir almennings sem halda á viðkomandi þjóðargjaldmiðli. Ekkert miðlægt afl hefur völd til að prenta fleiri Bitcoin og því hefur oft verið talað um það sem vörn gegn áföllum, í svipuðu samhengi og gull. Vert er að nefna að Bitcoin hefur ekki sannað ágæti sitt í almennri heimskrísu, þó svo að rafmyntin hafi ítrekað sannað ágæti sitt yfir síðustu tólf ár í smærri krísum.

Við hvetjum því alla til að lesa betur um Bitcoin, og þá miklu hugarfarsbreytingu sem rafmyntin ber með sér. Einnig viljum við óska Bitcoin til hamingju með þennan stóra áfanga í þriðja sinn!