grein

Árið 2019 gert upp

10/01/20 13:20

Stjórnarformaður Rafmyntaráðs

Kristján Ingi Mikaelsson

Stjórnarformaður Rafmyntaráðs

Árið sem var að líða var heilt yfir gott ár fyrir rafmyntir og bálkakeðjutæknina á Íslandi. Íslenska ríkið fékk greitt 355 milljónir í formi bitcoin. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eru komnir með áfanga og klasa til að treysta þekkingu í málaflokknum. Íslensk fyrirtæki eru komin í dauðafæri og hafa staðsett sig sem leiðandi afl á heimsvísu. Rafmyntaráð er komið á fullan skrið og náði nýjum hæðum í samstarfi og fræðslu. Því miður var þjófnaður og svindl einnig áberandi á árinu.

Að taka saman heilt ár fyrir nýtt fjármálakerfi og tækni getur reynst þrautinni þyngra. Það var þó margt sem stóð upp úr. Sumt var gott en annað var miður. Ísland á það til að dragast ítrekað inn í erlenda umræðu vegna sögulegs mikilvægi þess í geiranum. Það er þó óhætt er að segja að árið hafi byrjað með bombum.

Fyrirtækin okkar gera gott mót á heimsvísu

Árið 2019 var klárlega ár vonarstjörnu Íslands í geiranum, Monerium. Félagið komst ítrekað í heimspressuna fyrir verkin sín en það gaf meðal annars út fyrsta eiginlega þjóðargjaldmiðil heims á bálkakeðju, framkvæmdi fyrstu uppgjörsviðskiptin milli fyrirtækja með þjóðargjaldmiðlum á bálkakeðjum ásamt því að framkvæma fyrstu milliríkjafærsluna með þjóðargjaldmiðlum á bálkakeðjum. Mikil tugga að telja upp en skráist engu að síður á spjöld sögunnar. Þess má til gamans geta að Íslenska krónan varð fyrsti gjaldmiðill heims til að verða eiginlegur á bálkakeðjum! 

Ripple, sem er félag sem þróar bálkakeðjuna fyrir XRP rafmyntina sem er sú þriðja stærsta í heiminum var einnig með stóra innkomu á Íslandi. Það keypti íslenska félagið Algrím sem hefur síðustu ár þróað hugbúnað fyrir hátíðniviðskipti. Tilkynnt hefur verið að Ripple hefur formlega opnað skrifstofu á Íslandi og stefna á að ráða fleiri einstaklinga á árinu.

Raforkunotkun aftur til umræðu

Árið fór kröftuglega af stað þegar raforkunotkun bitcoin komst aftur í umræðuna á fyrstu viku ársins. Andri Snær skrifaði pistil, sem upphaflega beindi spjótum sínum að orkumálastjóra, en í óvæntri beygju dró hann Bitcoin í svaðið. Bitcoin er ekki yfir gagnrýni hafið, en það má samt ekki afskrifa þó að stærsti veikleikinn leynist vissulega í orkunotkuninni. Ég sendi inn svargrein sem fór betur yfir málið.

Verðþróunin

Í byrjun árs var vægast samt slæm stemming sökum markaðsaðstæðna á rafmyntum heimsins. Þá kostaði eitt bitcoin um $3.000 eða 360.000 krónur. Bitcoin hafði þá fallið um 85% frá hápunkti ársins 2017 sem reyndist mörgum erfitt. Hafa ber þó í huga að þessi sveifla hefur sést áður og mun eflaust endurtaka sig á meðan bitcoin heldur vegferð sinni áfram.  Ég fjallaði betur um þessa síendurteknu bólumyndun, sem gerir gagnrýnendum alltaf lífið leitt með því að snúa aftur, í innsendri grein í Viðskiptablaðinu. 

Verðið á mörkuðum er hinsvegar ekki öll myndin, en það ýtir vissulega undir frekari vöxt og fjárfestingar í geiranum sem er gott til lengri tíma.

Ríkinu áskotnast 355 milljónir af sölu bitcoin

Á síðasta ársfjórðungi 2019 staðfesti dómsmálaráðherra að Íslenska ríkið fengi 355 milljóna króna ávinning vegna aðkomu að svokölluðu Silk Road máli. Silk Road fór í loftið árið 2011 og óx á ævintýralegum hraða sem markaðstorg með ólöglegan varning. Einn af hornsteinum markaðarins var bitcoin, en mikið magn rafmyntarinnar var haldlagt í leit í gagnaveri. Þetta gagnaver reyndist vera íslenskt og seinna kom í ljós að markaðstorgið var einnig hýst á Íslandi. Ég mæli með ýtarlegri grein um málið í greinasafni Rafmyntaráðs og WIRED.

Viðhorfið tekur breytingum

Aukist hefur umræðan meðal seðlabanka að þeir hyggist gefa út sýnar eigin rafmyntir. Vert er að benda á að þessar myntir ber frekar að kalla stafrænt fé, þar sem rafmyntahugtakið er einungis notað þegar um er að ræða útgáfu sem er ekki stýrð af seðlabanka eða landi. Því ber þó að fagna að málefnið sé til skoðunnar hjá seðlabönkum. Það til marks um kosti tækninnar þegar íhaldsamar stofnanir tala um ný fyrirbæri með jafn opnum hætti.

Libra kom einnig oft við sögu á árinu, en það er tilraun Facebook til að stíga inn með lausnir í fjártækni. Til stendur að Libra verði mynt sem er notuð á miðlum Facebook. Þetta útspil hjá Facebook hefur valdið talsverðum titring meðal löggjafans í öllum heiminum, og er óvíst þykir hvort verkefnið verði að veruleika.

Ljóst þykir að viðhorfið er að opnast upp á gátt. Rafmyntaráð tók saman pistil um málið í mars 2019.

Önnur rafmyntakauphöll í smíðum

Jákvætt var á árinu þegar Myntkaup tilkynni komu sína og smíði á nýjum íslenskum rafmyntamarkaði. Sökum þess hve markaðurinn á Íslandi er lítill hefur reynst erfitt að búa til tvíhliða markað eins og ISX.is rekur. Þetta segist Myntkaup leysa í nýlegri grein Viðskiptablaðsins, með því að tengjast beint við erlendar kauphallir.

Þjófnaður á námubúnaði vekur heimsathygli

Fleiri kurl komu til grafar í þjófnaðinum á námubúnaði sem átti sér stað 2017. Í hreint út sagt ævintýralegum eltingaleik flúði einn af þjófunum af landi brott í flugvél með forsætisráðherra. Allir þjófarnir í málinu hlutu dóm á árinu en búnaðurinn er ennþá ófundinn. Stórir miðlar eins og GQ og Vanity fair skrifuðu ýtarlega rannsóknarpistla (pistill GQ og Vanity Fair og gerðu erlendir blaðamenn lítið annað en að tala um þetta mál þegar reynt var að koma öðrum málum að.

Augljóst er að þetta voru miklir álitshnekkir hvernig fór í málinu en hafa verður þó í huga að magn búnaðarins sem komið var undan er óverulegt. Íslensk gagnaver halda áfram að sækja í sig veðrið með meiri breidd í hópi viðskiptavina, sem styrkir stoðir þjónustu við Bitcoin netið.  

Nýr sæstrengur, orkuskortur og gagnaver

Einnig var talað ítrekað um orkuskort í kjölfar orkupakka 3 (einnig þekktur sem partýpakki). Að fyrri sið var gagnaverum hent undir vagninn, þegar staðreyndin er að 83% af orku í landinu er seld til fimm fyrirtækja. Gagnaversiðnaðurinn er farinn að skila talsverðum tekjum í þjóðarbúið og hefur iðnaðurinn, sem starfað hefur frá 2013 á Íslandi, fært okkur gæfu og gott orðspor innan geirans.

Tilkynnt var um undirbúning nýs sæstrengs, sem er eflaust aðeins útfyrir efni þessarar greinar en er samt mikið hagsmunamál í heild sinni. Taka það fram að um er að ræða gagnasæstreng en ekki orkusæstreng eins og var hávært í umræðunni líka. Hvenær og hvort verður af þessum sæstreng á eftir að koma í ljós en víst er að allur hugvitsgeiri og annar geiri sem nýtir internetið þarf á betri gagnatengingum að halda.

Píramídasvindlið OneCoin afhjúpað

Það er sorglegt hvað svindlurum tekst vel að soga til sín athygli og fjármagn samhliða tækifærum eins og þeim sem felast í rafmyntum. Mikið var fjallað um píramídasvindlið OneCoin á árinu, en BBC gerði frábæra hlaðvarpsseríu þar sem rannsóknarblaðamaður rakti málið. Umræðan var eflaust meiri hérlendis þar sem ótrúlegustu aðilar flæktust inn í málið. Kom í ljós að Ásdís Rán reyndist vera ein besta vinkona höfuðpaurs svikamyllunar og vann hún um tíma fyrir verkefnið. Rúv greindi frá því að ljóst væri að tugir Íslendinga hefðu fallið fyrir svindlinu en Rafmyntaráði reiknast til að þessi tala sé því miður mun hærri. Mikilvægt er að stíga varlega til jarðar þegar farið er út í fjárfestingar og er Rafmyntaráð alltaf til staðar til fræðslu ef fólk er með spurningar um rafmyntir (sem þó er aldrei fjárfestingaráðgjöf).

Auður Björgólfs Thors rakinn að hluta til rafmynta

Fréttablaðið hélt því fram í mars að auður Björgólfs Thors, ríkasta manns Íslands væri að hluta til rakinn til rafmynta. Ekki hafa ennþá komið fram einhver gögn því til stuðnings en þetta er áhugavert ef satt reynist.

Áhugi almennings eykst

Rafmyntaráð stór fyrir fjölda viðburða og fyrirlestra á árinu. Einnig var gaman að sjá að einstaklingar og fyrirtæki eru einnig farin að fjalla meira um rafmyntir og bálkakeðjur á eigin forsendum.

Hæst ber að nefna opnunarfyrirlestur Rafmyntaráðs á fjártæknilínu UT-Messunnar og fyrirlestur á Vorráðstefnu Reiknistofu Bankanna. Við fórum einnig inn í banka, fyrirtæki og félagasamtök og fórum yfir hvað er spennandi við þennan geira. Einnig jókst samstarf Rafmyntaráðs og Fjártækniklasans og tók klasinn virkan þátt í umræðunni með sínum fjártæknivinkli.

Háskólarnir taka virkan þátt

Á árinu hélt Háskóli Íslands opna fyrirlestrarlínu sem stóð yfir í tólf vikur. Á þessum tíma komu fram okkar færustu sérfræðingar í geiranum og ræddu um sín áhugasvið. Þessi sería tókst einstaklega vel til og munum við beita okkur fyrir því að halda hana aftur á seinni hluta ársins. Jafnframt náðum við að taka upp flesta fyrirlestrana og verða þeir birtir hvað úr hverju.

Fjártæknisetur HR fór einnig á fullan skrið á árinu en það er rannsóknasetur á sviði fjártækni. Eitt af markmiðunum með stofnun setursins er að beina athygli hinna ýmsu deilda háskólans að þeirri miklu framþróun sem er að verða á sviði fjártækni, og fá þær til að skoða hana í sameiningu. Annað af markmiðum setursins er að tengja skólann við fjármálageirann á sviði fjártækni, og þá að fá samstarfsaðila inn í setrið, en Íslandsbanki hefur nú þegar hafið samstarf við setrið. Jafnframt er þetta vettvangur fyrir nemendur til að gera tilraunir, án þeirrar arðsemiskröfu og álags sem fylgir slíku starfi á hinum almenna vinnumarkaði.

Hið opinbera bregður fæti fyrir framtaksama

Byrja verður að tala um það sem er gott. Loksins hafa rafmyntir verið skilgreindar í lögum. Ekki var það besti kosturinn að það yrði fyrst gert í lögum um peningaþvætti en engu að síður eru grunnhugtökin loksins komin á borð löggjafans.

Einnig laumaði RSK inn skilgreiningu á rafmyntum inn í leiðbeiningar um skil fyrir framtal ársins 2018 í kafla 4.4. Ekki var gerð nein tilraun að við vitum til að tilkynna þessar breytingar, né hafa samband við Rafmyntaráð. Þrátt fyrir það virðist fólk innan RSK ætla að þetta byrji að skila sér sjálfkrafa á framtal. Augljóst er að meiri samvinnu þarf að hafa í kynningarstarfi og ákvörðunum. Almennt eru betri skilgreiningar velkomnar. Rafmyntir voru því settar í flokkinn „Aðrir eignir áður ótaldar“ og ber að færa þær inn á markaðsverði í árslok. Enn ríkir óvissa um með hvaða hætti rafmyntir eru skattlagðar og hvort um sé að ræða vaxtatekur, gengishagnað eða söluhagnað.

Sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins er svo enn eitt dæmið um það sem var miður á árinu, en sameiningin færir aukin völd á eina stofnun. Erfitt getur verið fyrir fyrirtæki í nýsköpun um rafmyntir að sækja um starfsleyfi hjá stofnun sem sér um að verja krónuna, stunda gjaldeyriseftirlit og stuðla að þjóðarvarúð. Í dag hefur Seðlabanki Íslands einkarétt á útgáfu löglegrar myntar í landinu ásamt því að koma myndarlega að rekstri tveggja stærstu greiðslukerfa landsins, jafngreiðslu- og stórgreiðslukerfisins. Rafmyntaráð skrifaði upp þessar alvarlegu athugasemdir og kom þeim á framfæri í samráðsferli laganna.

Grái listinn kom eins og þruma úr heiðskýru lofti í lok árs og hefur bitnað hvað mest á ungum fyrirtækjum sem eru ekki með viðskiptasögu. Nauðsynlegt er að treysta varnir og koma okkur af þessum lista sem allra fyrst áður en meiri skaði hlýst af viðveru Íslands á listanum.

#ársins fer til Morgunblaðsins

Í febrúar sá Morgunblaðið sér heldur betur leik á borði. Það tók sig til og fann fimm ára gamlan pistil og þýddi hana í heild sinni. Telja má að blaðið hafi ætlað að slá um sig svona rétt áður en bitcoin yrði endanlega dautt eftir um 85% niðursveiflu. Ekki þarf að telja upp allt bullið í pistli blaðsins, en auðvelt er að gera sér í hugalund sambærilegt bull ef að snjallsímar eða rafbílar væru gagnrýndir út frá 5 ára gömlum pistlum. Það yrði frásögu færandi ef að blaðið sýndi álíka mikinn metnað þegar vel gengur eða þegar þörf er á að kynna afrek fyrirtækjanna í landinu, en þá er blaðið fjarverandi með öllu. Rafmyntaráð er að vanda tilbúið að aðstoða blaðið í heimildarleit og að stinga upp á fréttnæmu efni. Þetta framtak færir Morgunblaðinu því verðlaun ársins fyrir laka tilburði án atrennu.

En til að loka svona löngum pistli ber að minnast þess að nú er ellefta ár Bitcoin hafið, og ótrúlegt en satt, þá er það ekki dautt ennþá!