Stjórnarformaður Rafmyntaráðs
Á undanförnum mánuðum hefur átt sér stað breyting í viðhorfi til rafmynta. Nágrannalöndin sem við kennum okkur við hafa í auknum mæli sett regluverk sem styrkir stoðir nýsköpunar- og fjártæknifyrirtækja. Á Íslandi ríkir enn lagaleg óvissa um rafmyntir sem gerir sprotafyrirtækjum og framsæknum íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir.
Umræðan um rafmyntir á Íslandi hefur lengi verið einhliða og snúið að göllum tækninnar frekar en tækifærum. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og umræðan út í heimi er öll að breytast. Af einhverri ástæðu nær hún samt ekki að berast til Íslands.
Mörg af stærstu fyrirtækjum heimsins hafa undanfarin ár verið að byggja lausnir með rafmyntatækni, sem einnig hefur verið nefnd bálkakeðjutækni. Bálkakeðjur bjóða upp á nýja framsækna eiginleika, sem lausn á tæknilegum vandamálum sem ekki hafa sést áður. Dæmi um slíkar lausnir eru t.d. rekjanleiki á vörum, eignaskráning verðmæta, stafrænar auðkenningar án milliaðila ásamt forritunarlegum þjóðargjaldmiðlum á bálkakeðjum. Líklega eru þær lausnir sem bálkakeðjur bjóða upp á núna bara byrjunin á miklu stærri þróun. Þegar þessar lausnir, sem byggja á grunnstoðum bálkakeðjutækninnar, koma fram er líklegt að sprenging verði í nýsköpun, sem áður var ekki hægt að sjá fyrir.
Nýleg löggjöf í Lúxemborg opnaði á þá möguleika að færa fjármuni í formi verðbréfa á bálkakeðjur. Þetta útspil var fyrsta skref stjórnvalda þar í landi til að auka skilvirkni í fjármunaflutningum og færa verðmæti yfir á rafrænt form. Í dag krefjast hefðbundnar verðmætasendingar margra milliliða og geta þar af leiðandi verið tímafrekar og dýrar. Bálkakeðjur eru þeim kostum gæddar að ekki þarf milliliði í hefðbundnum millifærslum og þar af leiðandi er hægt að spara mikið af þeim færslukostnaði sem fellur til í hefðbundnum viðskiptum.
Móðurfélag New York Stock Exchange, Intercontinental Exchange, ákvað á þriðja ársfjórðungi síðasta árs að bjóða upp á viðskipti, uppgjör og vörslu á rafmyntinni Bitcoin. Búið er að gefa það út að þessi lausn fer í loftið á næstu mánuðum. Sama er hægt að segja um Nasdaq, en opnað verður fyrir sambærilega þjónustu seinna á árinu. Með innkomu kauphallanna geta fagfjárfestar bætt Bitcoin í eignarsafnið sitt í fyrsta skiptið. Búist er við auknum umsvifum rafmynta í kjölfarið. Þetta er mikil viðurkenning á tækninni, sem sýnir hversu langt Bitcoin er raunverulega komið á tíu árum.
Nokkur fylki í Bandaríkjunum eru með frumvörp í vinnslu sem heimila þegnum fylkjanna að greiða skatta með rafmyntum. Fyrsta fylkið til að samþykkja slíkt frumvarp var Ohio. Á skattavefsvæði Ohio kemur fram að kostir við að nota rafmyntir eru þríþættir; millifærslur ganga hratt fyrir sig, eru einfaldar og hægt er að að fylgjast með greiðslunni í rauntíma á bálkakeðju. Auk þessa kosta eru millifærslurnar öruggar, þar sem enginn milliliður getur stöðvað greiðslurnar.
Á Íslandi er viðhorf stjórnvalda óljóst gagnvart þessari nýju tækni og verðmætum. Í raun má ganga svo langt að segja að engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum málaflokki. Ríkisskattsjóri hefur ekki gefið út hvernig skuli meðhöndla rafmyntir í viðskiptum. Lagaleg staða gagna á bálkakeðjum er óljós. Fyrirtæki á Íslandi sem vinna í geiranum fá ekki að stofna bankareikninga í ríkisbönkunum vegna hræðslu bankanna við nýja og ögrandi tækni. Sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins mun veita Seðlabankanum reglugerðarvald, úrskurðarvald og eftirlitsvald yfir rafmyntum og bálkakeðjum á sama tíma og hann hefur einokunarvald á útgáfu peninga á Íslandi. Staðan hérlendis er því ekki góð og stjórnvöld verða að átta sig á mikilvægi stefnumótunar í þessum málaflokki.
Þrátt fyrir alla þá óvissu sem fylgir þessari nýju tækni er orðspor Íslands á þessum vettvangi nokkuð gott en betur má ef duga skal og nú er tækifæri fyrir Ísland til að vinda ofan af lagalegri óvissu tengda þessari nýju tækni. Mikilvægt er að beita framsýnni hugsun rétt eins og gert var fyrir veraldarvefinn til þess að hlúa að tækniframförum sem hafa alla burði til að verða stór hluti af lífi almennings innan fárra ára. Því er nauðsynlegt er að sníða löggjöf í samræmi við umfang og þá augljósu möguleika sem liggja fyrir.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 30. mars 2019.